Allt að 10,7% lækkun á tengigjöldum heimlagna

27. október 2021 - 12:54

Veitur munu lækka gjaldskrá fyrir tengingar heimlagna til nýrra viðskiptavina hitaveitu, rafveitu og vatnsveitu. Lækkunin nemur frá 2,2% til 10,7%. Breytingin tekur gildi í byrjun desember. 

Nýja gjaldskráin felur í sér 8% lækkun á tengingum hitaveituheimlagna, tenging vatnslagna lækkar um 10% og rafmagns um 2,2% - 10,7% en þar eru gjöld mismunandi eftir stærð tenginga. 

Auk lækkunar á verði tenginga hefur gjaldskráin verið einfölduð og fellt hefur verið úr gildi ákvæði um viðbótarkostnað sem fallið gat  á húsbyggjendur, bæði verktaka og almenning, vegna heimalagna. Sú aðgerð skilar sér í hraðari afgreiðslu umsókna og þar af leiðandi minni biðtíma viðskiptavina. 

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna  

„Lækkunina á tengigjöldum má rekja til umfangsmikillar umbótavinnu starfsfólks Veitna sem leitt hefur til aukinnar skilvirkni sem skilar sér í lækkun á rekstrarkostnaði milli ára. Veitur sjá sér því fært að lækka tengigjöld án þess að það komi niður á arðsemi fyrirtækisins. Tengigjöld fyrir allar veitur eru að lágmarki um 880 þúsund krónur fyrir sérbýli og lækkunin er því umtalsverð.“

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.