Gerlamengun í vatni frá Grábrókarveitu staðfest - uppfært 14.okt.

11. október 2019 - 09:55

Uppfært 14. október 2019

Starfsfólk Veitna vann nú um helgina að prófunum og stillingum á lýsingarbúnaði í vatnsbólinu í Grábrókarhrauni. Enn er stefnt að því að aflétta tilmælum um suðu á neysluvatni á miðvikudag, 16. október. Lýsing á vatni með útfjólubláu ljósi er mjög áhrifarík leið til að hreinsa drykkjarvatn og gera það öruggt til neyslu.  Aðrir eiginleikar vatns breytast ekkert við hreinsunina.

Sýni eru tekin daglega í vatnsbólinu og dreifikerfinu og samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum rannsóknarstofu, sem bárust í morgun, voru hvorki coli né E.coli gerlar í sýnunum sem tekin voru föstudaginn 11., laugardaginn 12. og sunnudaginn 13. október. Frekari greining á sýnunum stendur yfir og áfram eru sýni tekin daglega.

Ekki er vitað um uppruna mengunarinnar í vatnsbólunum. Vísindafólk Veitna vinnur í samstarfi við rannsóknarstofur hvorttveggja að því að útiloka möguleika og rannsaka aðra frekar. Slíkar rannsóknir munu taka nokkurn tíma.

Starfsfólk Veitna biðst velvirðingar á  óþægindum sem viðskiptavinir verða fyrir vegna þessa.

------

Fréttin 11. október 2019

Veitur og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands ítreka tilmæli frá í gær um að viðskiptavinir vatnsveitu Veitna úr Grábrókarhrauni sjóði neysluvatn. Vatnsbólið þar þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Í morgun barst staðfesting á grun um gerlamengun í vatninu. Hvorttveggja kólí og E.coli gerlar fundust í sýninu sem gruninn vakti. Um miðja næstu viku verður tekinn í notkun lýsingarbúnaður við vatnsbólið.

Sjóða þarf allt drykkjarvatn í Borgarnesi og hluta Borgarfjarðar í að minnsta kosti eina mínútu áður en þess er neytt. Þessi tilmæli eru í gildi að minnsta kosti til miðvikudagsins 16. október. Svæðið sem tilmælin ná til er sýnt á kortinu hér að neðan.

Veitur hófu daglega sýnatöku úr vatnsbólinu þegar fyrst kviknaði grunur um gerlamengun í því á fimmtudag í síðustu viku. Þau sýni reyndust mengunarlaus þar til grunur kviknaði aftur um gerlamengun í gær. Í morgun fékkst staðfesting á þeim.

Vatnsbólið í Grábrókarhrauni var tekið í notkun árið 2007 og þetta er í fyrsta skipti sem notendur þess eru hvattir til að sjóða neysluvatnið.

Eftir að grunur var um gerla í vatninu á dögunum var ákveðið að setja upp lýsingarbúnað við vatnsbólið í Grábrókarhrauni. Stefnt er að því að hann verði kominn í notkun á miðvikudag en hann mun tryggja öryggi vatnsins.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands og Veitur leggja áherslu á að notendur sjóði neysluvatn þar til búnaðurinn verður virkur enda geta gerlasmit valdið slæmum sýkingum hjá fólki, einkum þeim sem eru viðkvæm fyrir, þar með talin eru börn og eldra fólk. Vatnið þarf að sjóða í að minnsta kosti eina mínútu.

Starfsfólk Veitna leggur nú kapp á að ná til sem flestra viðskiptavina og eftirlitsaðilum er haldið vel upplýstum um framvindu.

 

Áhrifasvæði Grábrókarveitu