Jón Trausti tekur við vatns- og fráveitu Veitna

07. janúar 2022 - 11:12

Jón Trausti Kárason hefur verið ráðinn forstöðumaður vatns- og fráveitu hjá Veitum en fyrirtækið er umfangsmest á því sviði hér á landi.

Jón Trausti er með meistaragráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og er þar að auki með bakkalárgráðu í vélatæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík og sveinspróf í vélvirkjun.

Undanfarin tvö ár hefur Jón Trausti starfað sem verkefnastjóri fjárfestingarverkefna hjá Veitum, en starfaði áður hjá Lotu verkfræðistofu og þar áður í kjötiðnaðarsetri Marel.

 Jón Trausti Kárason:

„Það er mér mikill heiður að vera falið það ábyrgðarhlutverk að leiða vatns- og fráveitu Veitna, en veiturnar tvær eru hluti mikilvægustu innviða samfélags okkar. Viðfangsefni okkar inn í framtíðina eru að halda áfram að tryggja viðskiptavinum Veitna hreint- og heilnæmt drykkjarvatn og vinna í átt að sporlausri fráveitu til ófyrirséðrar framtíðar,“ segir Jón Trausti. „Sé tekið tillit til þeirra gríðarstóru áskorana og verkefna sem við sem samfélag sjáum við sjóndeildarhringinn, þá er ljóst að vegferð vatns- og fráveitu inn í þá framtíð verður í meira lagi krefjandi en jafnframt spennandi“. 

Umfangsmikil starfsemi

Veitur dreifa vatni í Reykjavík, á Álftanesi, í Stykkishólmi, Í Grundarfirði, á Bifröst, í Munaðarnesi, í Reykholti, á Kleppjárnsreykjum, á Hvanneyri, í Borgarnesi, á Akranesi og nágrenni og í Úthlíð. Einnig selja Veitur Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi vatn í heildsölu. 
Fráveitukerfi Veitna þjóna um helmingi landsmanna og hreinsistöðvar fyrirtækisins enn fleirum. Í uppsveitum Borgarfjarðar reka Veitur fjórar lífrænar hreinsistöðvar. 

 

Mynd: Gunnhildur Hansdóttir.

 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.