Lægsta verð á raforkudreifingu er hjá Veitum

08. apríl 2022 - 11:39

Lægsta verð á raforkudreifingu fæst hjá Veitum sem dreifa rafmagni Í Reykjavík, í Kópavogi, í austurhluta Garðabæjar, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og á Akranesi. Þetta kemur fram í útreikningum Orkustofnunar sem gerðir voru að beiðni Byggðarstofnunar á raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum á nokkrum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli.

Fram kemur að verðið hjá Veitum er hið lægsta á landsvísu, 78 þ.kr. á ári fyrir almenna raforkunotkun á meðan hæsta verðið í þéttbýli er 92 þ.kr. Raforkuverð til almennings er svo nokkuð hærra í dreifbýli eða um 103 -104 þ.kr. á ári. Útreikningarnir miðast við viðmiðunareign sem er einbýlishús, 140 m² að grunnfleti og 350 m³.

Almenn raforkunotkun er sú raforka sem er notuð í annað en að hita upp húsnæði, s.s. ljós og heimilistæki, en miðað er við 4.500 kWst í almennri rafmagnsnotkun.  Notendur eru bundnir því að greiða fyrir flutning og dreifingu á rafmagni frá dreifiveitum, eins og Veitum, sem hafa sérleyfi á viðkomandi svæði. Notendur geta keypt raforku af hvaða sölufyrirtæki sem er en þau eru nokkur og með mismunandi verð. Lægsta mögulega verð er það verð sem fæst með því að velja orkusala sem býður lægsta söluverð á raforku á hverjum tíma

Meiri munur er á verði þegar kemur að húshitun. Verðið fyrir húshitun er lægst 68 þ.kr. á Flúðum og hæst í Grímsey, þar sem það nemur 216 þ.kr.  Flúðir eru þekkt jarðhitasvæði en í Grímsey eru hús kynt með olíu. Verð fyrir húshitun hjá Veitum á höfuðborgarsvæðinu er 111 þ.kr. Við útreikningana var miðað við 28.400 kWst notkun við húshitun án varmadælu og 14.200 kWst með varmadælu.

Hér má sjá skýrslu Byggðastofnunar um orkukostnað heimila árið 2021. 

 

Mynd: A12 Aðveitustöð rafmagns í Almannadal. Myndina tók Atli Már Hafsteinsson.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.