Rafveita Veitna vel búin til að rafvæða Strætó

30. september 2021 - 11:10

-Strætó hyggst fjölga rafmagnsvögnum
-Lítil þörf á að styrkja rafdreifikerfið vegna uppbyggingar hleðslukerfis
-Auðvelt að tengja verulegt hleðsluafl víða í leiðarkerfinu
-Rafvæðing Strætó minnkar losun um 9.000 tonn CO2 ígilda

Lítil þörf er á að styrkja dreifikerfi rafveitu Veitna vegna uppbyggingar hleðslukerfis Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sýna niðurstöður greininga sem kynntar eru í nýútkominni skýrslu Veitna. Þar er einnig horft til heppilegra staðsetninga hleðslna með tilliti til leiðarkerfis Strætós og rafdreifikerfis Veitna. Skýrslan var unnin eftir að undirrituð var viljayfirlýsing um að fyrirtækin hyggist sameina krafta sína til að tryggja að uppbygging rafmagnsinnviða Veitna taki tillit til þarfa Strætó og annarra vistvænna ferðamáta. Með þessu vilja fyrirtækin, sem bæði eru í eigu almennings, leggja sitt af mörkum til að lágmarka samfélagslegan kostnað við orkuskipti í samgöngum á Íslandi.

Í dag rekur Strætó 14  rafmagnsstrætisvagna sem hafa reynst vel, verið ódýrir í rekstri og krafist lítils viðhalds. Stefnir Strætó á að fjölga slíkum vögnum á næstu misserum. Það er ljóst að rafmagnsstrætisvögnum fylgir margvíslegur ávinningur, rekstrarlegur og umhverfislegur, en meðal hindrana í innleiðingu er uppbygging nauðsynlegra hleðsluinnviða og aðlögun leiðarkerfisins svo hægt sé að hlaða vagna á biðstöðvum, meðan vagnarnir eru í notkun.

Bestar aðstæður í Mjódd

Strætó er með hleðsluaðstöðu við Hestháls með 750 kW afli og eina 150 kW hleðslustöð í Spönginni í Grafarvogi. Niðurstöður skýrslunnar benda til þess að beinast liggi við að ráðast fyrst í uppbyggingu hleðsluinnviða í Mjódd þar sem aðstæður eru eins og þær verða bestar, bæði með tilliti til leiðarkerfis og dreifikerfis rafmagns. Í skýrslunni eru einnig tilteknir fleiri ákjósanlegir staðir í leiðarkerfi Strætó þar sem auðvelt er að tengja verulegt hleðsluafl við dreifikerfi Veitna. Getur uppbygging hleðsluinnviða á þessum stöðum byrjað smátt án mikilla fjárfestinga en vaxið í skrefum eftir því sem rafmagnsvögnum fjölgar og hleðsluþörf eykst.

Losun vegna vagna Strætó er árlega 4.460 tonn CO2 ígilda og gera má ráð fyrir að losun verktaka sem keyra fyrir Strætó sé svipuð. Með rafvæðingu strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að minnka losun um 9.000 tonn CO2 ígilda á ári á höfuðborgarsvæðinu. 

Skýrsluna má finna hér

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.