Skólp í sjó við Faxaskjól

21. september 2022 - 15:49

Vegna frétta um losun á óhreinsuðu skólpi í sjó við Faxaskjól í Reykjavík vilja Veitur koma eftirfarandi á framfæri. Líkt og fram hefur komið hefur engin starfsemi verið í skólpdælustöð okkar við Faxaskjól frá 19. ágúst sl. Ástæðan er sú að við höfum verið að endurnýja svokallaðar yfirfallsdælur í stöðinni.

Þegar starfsemi skólpdælustöðva stöðvast hættir skólpið ekki að streyma til okkar. Þá höfum við í raun bara tvo möguleika í stöðunni. Annarsvegar að hleypa skólpinu út í sjó eða að senda það aftur til baka, þá færi það upp um klósett og niðurföll borgarbúa. Við veljum alltaf fyrri kostinn.

Til þess að lágmarka það að skólp færi í sjóinn vegna viðhaldsins í Faxaskjóli var ákveðið að prófa í fyrsta skipti nýja aðferð með því að fá mjög öflugar dælur frá Hollandi til þess að dæla skólpinu fram hjá dælustöðinni og í hreinsistöð. Var þetta verkefni upp á 15-20 milljónir króna og bundum við miklar vonir við þessa tilraun. Í upphafi gekk þetta vel og lítið sem ekkert skólp fór í sjóinn. Þegar á leið fóru dælurnar að klikka og stöðvuðust þær alveg síðasta föstudag og óhreinsað skólp fór þá að streyma út í sjó.

Þegar við hleypum skólpi í sjóinn leggjum við áherslu á að fjörur séu hreinar og höfum við síðustu daga verið með verktaka á okkar vegum sem hafa verið að hreinsa fjöruna við Faxaskjól. Það er einnig afar mikilvægt að upplýsingagjöfin sé góð og í því skyni setjum við upp upplýsingaskilti, sendum tölvupósta til hagsmunaaðila, upplýsum um opnun á neyðarlúgum á fráveitusjá Veitna ásamt því að setja fréttir á samskiptamiðla Veitna. Þrátt fyrir að allt þetta hafi verið gert á einhverjum tímapunkti er ljóst að við hefðum mátt upplýsa enn betur og sérstaklega huga að því að senda upplýsingar til íbúa þegar ljóst var að dælurnar voru hættar að virka og skólp fór að streyma út í sjó.

Við erum þess fullviss eftir að hafa rýnt ferla hér innanhúss og litið í eigin barm að við getum gert betur. Við tökum það hlutverk okkar að reka veitukerfi borgarinnar alvarlega og það skiptir okkur miklu máli að samtalið við íbúa og þá sem treysta á okkur þjónustu sé sem best. 

Hægt er að fylgjast með verkefninu hér Framkvæmdasjá Veitna.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.