Skýrsla um landtengingu skipa við rafdreifikerfi Veitna

25. maí 2020 - 11:59

Út er komin skýrsla starfshóps á vegum borgarstjóra um rafvæðingu hafna og landtengingar í höfnum Faxaflóahafna. Hlutverk starfshópsins var að finna hagkvæmar leiðir að því að efla landtengingar skipa í höfnum með uppsetningu háspennutenginga og lágmarka þannig áhrif losunar efna sem hafa áhrif á loftslag og valda hlýnun andrúmsloftsins frá hafntengdri starfsemi. Losun gróðurhúsalofttegunda innan starfssvæðis Faxaflóahafna nemur um 1% af heildarlosun á Íslandi.

Samskvæmt skýrslunni er landtenging skipa við raforkudreifikerfi í viðkomandi höfn nærtækasta lausnin en hún hefur hefur þann ótvíræða kost að koma í veg fyrir losun allra loftefna á meðan legu við hafnarbakkan stendur. Hinsvegar er sú lausn ekki í öllum tilfellum möguleg fyrir stærri farþegaskip, sérstaklega þegar horft er til annarra hafna á landinu en Faxaflóahafna, sökum aflþurftar þeirra og takmarkana í flutnings- og dreifikerfi raforku.

Faxaflóahafnir hafa greint uppbyggingu landtenginga í þrjá fasa þar sem sá fyrsti er lágspennutengingar fyrir skip og báta. Sá er í fullum gangi og annar rétt hafin með áætluðum 2 tengingum flutningaskipa við Vogabakka og Sundabakka á næstu tveimur árum. Þar er um að ræða háspennutengingar fyrir stærri flutningaskip. Þriðji fasinn er á undirbúningsstigi og felur í sér háspennutengingar fyrir farþegaskip í Sundahöfn, Akraneshöfn og Miðbakka.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir, Veitur, Samskip og Eimskip undirrituðu fyrir skömmu viljayfirlýsingu um að taka í notkun háspennibúnað fyrir flutningaskip við Sundabakka og Vogabakka í Reykjavík. Um er að ræða áfanga í því verkefni að tryggja raftengingar fyrir stærri skip í höfnum á Íslandi.

Staða aflfæðingar í veitukerfi Veitna var skoðuð við skýrslugerðina og gróft mat lagt á þann kostnað sem nauðsynleg styrking þess mun hafa í för með sér en m.a. er verið að undirbúa nýja aðveitustöð Veitna vegna almennrar uppbyggingar ásamt rafvæðingu stærri skipa. Gróft mat á heildarkostnaði Veitna í verkefninu gerir ráð fyrir að hann gæti orðið um 3.500 m.kr.

Skýrsluhöfundar skoðuðu einnig hvernig landtengingar sem þessar hafa verið fjármagaðar í N-Evrópu og hafa þær allar verið styrktar með opinberu fé. Þar er um að ræða blöndu af styrkjum frá styrktarsjóðum viðkomandi landa og Evrópusambandsins.

Starfshópinn skipuðu Gunnar Tryggvason aðstoðarhafnarstjóri, Jóhannes Þorleiksson frá Veitum, Friðrik Klingbeil frá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og Fríða Rakel Linnet var varamaður frá Veitum.