Þjónustuöryggi rafveitu, hitaveitu og vatnsveitu gott árið 2019

24. janúar 2020 - 13:31

Frammistaða Veitna í afhendingu á rafmagni, heitu og köldu vatni var prýðileg árið 2019. Áreiðanleiki veituþjónustu er mældur með því að deila samanlögðu umfangi þeirra fyrirvaralausu truflana sem verða á hverju ári niður á hvern notanda. Fylgst hefur verið með afhendingaröryggi rafmagns um árabil en Veitur hafa þróað verklag til að mæla áreiðanleika þjónustu annarra veitukerfa. Áreiðanleikastuðull upp á 100% þýðir að engin fyrirvaralaus truflun varð á rekstri viðkomandi veitu.
 
Áreiðanleikastuðull rafmagns er 99,99878% hjá Veitum árið 2019 sem telst afar gott á landsvísu en alls voru straumleysismínútur 6,4 að meðaltali á hvern notanda. Frá árinu 2015 hafa straumleysismínútur verið á bilinu 20-40 á ári á hvern notanda.
 
Þegar kemur að hitaveitu og vatnsveitu er samaburður við aðrar slíkar veitur ekki fyrir hendi þar sem við vitum ekki af öðrum hitaveitum hér á landi sem reikna stuðulinn. Við höfum þróað eigin mælikvarða fyrir heita vatnið sem svarar til straumleysismínútnanna í rafveituþjónustunni. Vatnsleysismínútur í hitaveitum Veitna árið 2019 reyndust 8,2 talsins. Árið 2015, þegar stuðullinn var fyrst reiknaður, voru þær örlítið hærri og hafa farið upp í 35 mínútur sem gerðist árið 2016.  Áreiðanleikastuðullinn í hitaveitunni árið 2019 er því 99,99844%. Þar sem Veitur vita ekki af öðrum hitaveitum hér á landi sem reikna stuðulinn út og þetta er einungis  fimmta árið sem við gerum það, er samanburður erfiður.

Árið 2019 var einnig gott þegar kemur að áreiðanleika vatnsveitunnar. Stuðullinn í kalda vatninu er 99,99987% en vatnsleysismínútur voru aðeins 0,7.