Veitulagnir lagðar undir Elliðaárnar í vetur

10. október 2019 - 11:36

Á næstu dögum verður hafist handa við að sameina lagnaleiðir veitulagna í Elliðaárdal. Nú liggja lagnir af ýmsu tagi víða um dalinn en með framkvæmdunum nú munu stofnæðar vatnsveitu og hitaveitu auk rafmagns- og fjarskiptastrengja liggja samhliða undir Elliðaárnar í grennd við núverandi hitaveitustokk, neðst í dalnum.

Framkvæmdirnar eru hluti af endurnýjun stofnlagna um svæðið sem staðið hefur síðustu misseri. Margar lagnanna eru komnar til ára sinna og mikilvægt að endurnýja þær áður en þær fara að bila, ef til vill á óheppilegum tíma ársins með tilliti til áhrifa á umhverfið. Til að tengja lagnir við Reykjanesbraut við stofnæðar frá Ártúnsbrekku þarf að þvera báðar kvíslar Elliðaánna. Það verður gert við hliðina á núverandi lagnastokki hitaveitunnar, sem jafnframt er göngubrú. Meðan á framkvæmdunum stendur verða árnar færðar um hríð úr farvegi sínum og veitt í framhjáhlaup á um 100 metra kafla.

Þessi tímasetning framkvæmdanna er samkvæmt tilmælum frá Hafrannsóknarstofnun; að þær skuli fara fram utan helsta göngutíma fiska, það er frá miðjum október til enda mars. Mikil áhersla hefur verið lögð á samráð við hlutaðeigandi aðila við undirbúninginn, þar á meðal við  Reykjavíkurborg, Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofu, Umhverfisstofnun, Minjastofnun og veiðifélög. Sérstök áhersla verður einnig á samráð og eftirlit á meðan framkvæmdum stendur. Þannig tiltekur Hafrannsóknarstofnun í umsögn um framkvæmdina fjölda atriða sem framfylgt verður á meðan á framkvæmdum stendur til að draga eins og nokkur kostur er úr áhrifum þeirra á fiskistofna og annað lífríki ánna.

Verkið var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til samræmis við lög um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstaða stofnunarinnar var að framkvæmdin muni ekki hafa umtalsverð áhrif á umhverfið en tiltekur skilyrði við tilhögun framkvæmda.

Utan farvegs Elliðaánna er lagnaleiðin að mestu leyti gróin. Áhersla verður lögð á að frágangur verði til fyrirmyndar, en mikil reynsla er hjá Veitum við frágang og uppgræðslu á röskuðum svæðum.

Dregið er úr áhrifum framkvæmdanna á útivist með því að útbúa hjáleiðir með nauðsynlegum merkingum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Spurt & svarað um þverun Elliðaáa