Framkvæmdir við háspennustreng í Miðborginni að hefjast

16. september 2019 - 14:54

Framkvæmdir áttu að hefjast í október en vegna þess hve háspennustrengur rafmagns er illa farinn þarf að hefja vinnu strax við að skipta honum út frá Bergstaðastræti 44, meðfram Baldursgötu að Freyjugötu 21. Í því felst töluvert rask fyrir íbúa sem óhjákvæmilega fylgja framkvæmdum sem þessum, en það þýðir m.a. að taka þarf upp hellur og grafa yfir vegi. 

Við gerum ráð fyrir að geta haldið akstursleiðum opnum en aðgengi fyrir gangandi vegfarendur verður skert. Við munum gæta fyllsta öryggis og biðjum vegfarendur að virða lokanir. 

Lokanir við hringtorg á Bæjarhálsi, Bæjarbraut og Hálsabraut

12. september 2019 - 11:55

Undanfarnar vikur höfum við unnið að endurnýjun hitaveitu í Árbænum. Verkið hefur kallað á lokun gatna sem hefur þýtt að beina hefur þurft umferð inn í hverfið, sem óneitanlega eykur á umferð í kringum unga ferðalanga á leið í skóla.

Við höfum reynt að vinna verkið hratt og þessum verkhluta lýkur mánudaginn 23. september. Malbikað verður í kjölfarið. Allt bendir til þess að við getum opnað fyrir umferð þann 27. september. 

Þar til þessu er lokið viljum við gjarnan að umferð sé beint í gegnum Hraunbæinn en ekki Rofabæ, og er það gert fyrir gangandi vegfarendur.

Lokað fyrir heitt vatn í Heiðarbrún í Hveragerði

11. september 2019 - 15:52

Við hjá Veitum vinnum í dag að því að færa dælu í borholu sem tilheyrir Austurveitu á meira dýpi. Þegar farið var af stað í verkið var gert ráð fyrir að þær tvær borholur sem áfram voru í rekstri dygðu til að anna þörfinni á heitu vatni. Svo reyndist ekki vera og var því gripið til þess ráðs að skerða afhendingu á heitu vatni hjá íbúum og fyrirtækjum við Hvammsveg í Ölfusi og í þéttbýlinu við Gljúfurholt. Sú skerðing átti að standa til klukkan 17:00 þegar framkvæmdum átti að ljúka.

Afkastageta hitaveitu í Þorlákshöfn aukin - lokanir á næstu dögum

06. september 2019 - 14:12

Á næstu dögum verður unnið að undirbúningi tengingar á nýrri stöðvardælu fyrir dælustöð hitaveitu á Bakka. Því verður heitavatnslaust í Þorlákshöfn, mánudaginn 9. september á milli kl. 18:00 og 22:00.  Föstudaginn 13. september verður minna heitt vatn til skiptanna í bænum á milli kl. 13:00-20:00 og lokað verður alveg fyrir heita vatnið frá kl. 20:00 og fram til kl. 10:00 á laugardagsmorgun. 

Lokun á Akrafjallsvegi þriðjudag til fimmtudags

03. september 2019 - 09:36

Þriðjudaginn 3. september klukkan 20:00 verður Akrafjallsvegi lokað norðan Akrafjalls vegna vinnu á endurnýjun aðveitu hitaveitu frá Deildartungu. Umferð verður beint suður með Akrafjalli á meðan framkvæmdir standa yfir.

Gert er ráð fyrir að vinna hefjist 3. september kl: 20:00 og ljúki 5. september kl 16:00.

Lokað fyrir heitt vatn í Árbæ, Kvíslum og Hálsum

30. ágúst 2019 - 16:36

Vegna endurnýjunar og stækkunar stofnæðar hitaveitu verður lokað fyrir heitt vatn í Árbæ, Kvíslum og Hálsum miðvikudaginn 4. september kl. 07:00-21:00. Í framtíðarskipulagi hitaveitu Veitna er heitu vatni frá virkjunum ætlað stærra hlutverk og í bígerð er að færa Árbæinn og Úlfarsárdalinn á virkjanavatn til frambúðar en þessi hverfi hafa hingað til að mestu fengið heitt vatn úr borholum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Framkvæmdir þessar eru liður í þeim breytingum. Þrátt fyrir að lokunin sé nokkuð umfangsmikil verður Árbæjarlaug opin á meðan á henni stendur.

Borað á sex stöðum í borginni

29. ágúst 2019 - 08:09

Dagana 29. ágúst -17. september munu Veitur bora nokkrar grunnar rannsóknarborholur innan borgarmarkanna. Tilgangurinn með borununum er að fylgjast betur með grunnvatnsborði innan borgarmarkanna og fá betri skilning á þeim viðtaka sem berggrunnurinn í Reykjavík er.

ALLTAF - Ljósmyndasýning um orku og innviði

23. ágúst 2019 - 13:43

Í tengslum við Menningarnótt heldur listamaðurinn Kjartan Hreinsson einkasýningu á ljósmyndum sínum undir heitinu ALLTAF. Undanfarin ár hefur Kjartan myndað talsvert á eigin vegum en oftar en ekki er það hið manngerða sem er myndefnið. Á þessari sýningu er það hugmyndin um orkuna sem ræður för; orkuna sem kemur til okkar af náttúrunnar hendi og hægt er að nýta milliliðalaust; orkuna sem búið er að beisla og er miðlað til okkar með flóknum innviðum; orkuna sem kraumar innra með okkur og ummerkin sem hún skilur eftir sig.