Um hitaveituna

Veitur reka þrettán hitaveitur; eina á höfuðborgarsvæðinu sem er sú stærsta, fimm á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi. Hitaveiturnar þjóna um 65% þjóðarinnar.

Höfuðborgarsvæðið

Lághitasvæðin á höfuðborgarsvæðinu eru nýtt jafnt og þétt. Eftirspurn á heitu vatni hefur aukist og var hún farin að nálgast þolmörk í heitavatnsforða. Því var ráðist í stækkun varmastöðvar á Hellisheiði.

Það var söguleg stund í rekstri hitaveitunnar sumarið 2019 þegar heitu vatni frá jarðvarmavirkjunum var veitt til Mosfellsbæjar, Árbæjar, Ártúnshöfða og Kjalarness. Um leið var létt tímabundið á vinnslu úr lághitasvæðum í Reykjahlíð, Laugarnesi og Elliðaárdal sem gerði það mögulegt að safna meiri forða fyrir veturinn.

Lærdómur af þessari aðgerð verður nýttur til að vinna að því að veita heitu vatni frá jarðvarmavirkjunum til alls höfuðborgarsvæðisins í framtíðinni. Gangi þessi áform eftir og hægt verður að nýta jarðhitasvæði innan sjálfbærnimarka bendir allt til þess að hægt sé að viðhalda notkun úr lághitasvæðum höfuðborgarsvæðisins um fyrirsjáanlega framtíð. Samhliða þessum verkefnum er lögð áhersla á það í framtíðaráætlunum hitaveitu að bæta nýtingu á heitu vatni og fullnýta orkustrauma.

Suður- og Vesturland

Ástand flestra lághitasvæða á Suður- og Vesturlandi er gott en þó eru undantekningar þar á. Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitu sem þjónar m.a. þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli. Unnið er að bættri vatns- og gufuöflun í Hveragerði.