Hreinsun

Hreinsun skólps

Í Reykjavík reka Veitur tvær hreinsistöðvar sem hreinsa grófefni, sand og fitu úr skólpinu áður en því er dælt út í Faxaflóa. Vorið 2018 voru samskonar hreinsistöðvar teknar í notkun á Kjalarnesi, Akranesi og í Borgarnesi.

Hreinsiferill skólps í hreinsistöðvum Veitna í Reykjavík, á Kjalarnesi, á Akranesi og á Borgarnesi.

Í Borgarbyggð reka Veitur fjórar hreinsistöðvar þar sem auk hreinsunar á fastefnum fer fram lækkun á styrk lífrænna efna áður en hreinsuðu skólpi er veitt í ár eða jarðveg.

Hreinsun ofanvatns

Veitur reka manngerðar tjarnir við nokkrar útrásir úr safnkerfi ofanvatns á höfuðborgarsvæðinu, svo sem við Norðlingaholt og Grafarholt, í Fossvogi og í Elliðaárdal. Tjarnirnar halda eftir eða tefja mengunarefni sem ofanvatnið hefur safnað í sig á leið sinni um þéttbýlið, til verndar ám og lækjum sem taka við vatninu.

Æskilegt er að dregið sé úr mengun ofanvatns, og að leitast sé við að hreinsa mengun úr ofanvatninu sem næst upprunastað. Þetta má gera með því að veita ofanvatninu um jarðveg og gróður. Gjarnan er vísað til slíkra aðferða til hreinsunar ofanvatns sem „blágrænna“, enda stuðlar innleiðing þeirra gjarnan að því að vatn og gróður verði meira áberandi í þéttbýlinu.

Örplast í skólpi

Rannsókn á örplasti í skólpi í hreinsistöðinni í Klettagörðum hefur sýnt að örplast finnst í nokkru magni í skólpi. Það er birtingarmynd víðtæks vanda, en flest bendir til að mikið magn örplasts berist lítt hindrað út í umhverfið hér á landi. Flest bendir þó til að ofanvatn flytji mun meira magn örplasts í sjó heldur en skólp. Litið er til örplastsvandans við mótun framtíðarsýnar Veitna um hreinsun skólps og ofanvatns.

Örplast í hafinu við Ísland.