Lýsing

Þegar dimma fer er nauðsynlegt að huga að inni- og útilýsingu bæði á heimilum og hjá fyrirtækjum. Mikilvægt er að huga vel að hönnun lýsingar þar sem hún hefur áhrif á líðan okkar og veitir öryggi. Mikill munur er á lýsingarþörf og er hún ekki sú sama í stofu, tölvuherbergi eða baði. Þess vegna er mikilvægt að skoða vel hvar á að nota ljósið og til hvers. Einnig ber að hafa í huga að lýsingarþörf einstaklinga eykst eftir því sem aldurinn færist yfir. Ýmsar tegundir af ljósnemum eru til á markaðnum eins og t.d. að neminn kveiki á útiljósum þegar dimmir og slekkur þegar birtir. Eins er til nemi sem fer eftir tímastillingu. Einnig eru til hreyfinemar sem kveikja ljós þegar hreyfing er, slíkt getur reynst góð þjófavörn.

  • Lýsið upp listaverk og bókahillur.
  • Notið hreyfiskynjara ef ljósið á að loga í stutta stund í einu.
  • Gætið þess vel að hafa ekki lampa nálægt gardínum eða öðru eldfimu efni og aldrei skal setja ábreiður yfir lampa.
  • Óhreinindi á lömpum geta dregið úr birtunni um allt að þriðjung.
  • Lýsing við inngang veitir öryggi og getur verið ódýr þjófavörn.

Stór hluti af rafmagnsnotkun heimila er vegna lýsingar. Með tilkomu spar- og LED ljósapera hefur orkunotkunin reyndar lækkað umtalsvert.

En hvernig má reikna út kostnað við lýsingu? Hér er lítið dæmi:

Gefum okkur að við séum með sparperu sem er 10 W (vött) =0,01 kW (kílóvatt). Það þýðir að það þarf 0,01 kílóvattstund af rafmagni til að láta peruna loga í eina klukkustund.

Kostnaður við hverja kílóvattstund er u.þ.b. 14 krónur þannig að hver klukkustund kostar því 0,14 krónur. Ef peran logar a.m.t. í 7 klst. á dag kostar dagurinn eina krónu.

Á vef Orkuseturs er reiknivél þar sem hægt er að bera saman ýmsar tegundir ljósapera, endingu og kostnað.