Eru sorpkvarnir í vaska góð hugmynd?

Veitur - grænmeti skolað yfir eldhúsvaski

Sorpkvarnir hafa hingað til ekki verið staðalbúnaður í íslenskum eldhúsum. Margir hafa kynnst notkun þeirra erlendis og hér á landi bjóða nokkur fyrirtæki þær til sölu. Nokkur sjónarmið eru uppi þegar kemur að áhrifum þeirra á fráveitukerfið og umhverfið en flest rök hníga að því að slíkar kvarnir séu ekki heppilegar í vaska hér á landi.

Fráveitukerfi á Íslandi eru ekki hönnuð til að taka við miklu magni af matarleifum. Auk þess að fara illa með lagnir vegna breytts sýrustigs þá auka þær álag á dælu- og hreinsistöðvar með tilheyrandi aukningu í viðhaldi og kostnaði. Töluvert magn fitu fylgir mat sem settur er í sorpkvarnir en fitan safnast saman og stíflar lagnir. Ekki má gleyma því að matarleifar í fráveitukerfinu kæta mýs og rottur allstaðar þar sem þær hafa aðgang. 

Matarleifar eru best komnar í jarðgerð, annað hvort við heimahús eða í gegnum sorphirðu sveitarfélaganna. Mörg þeirra eru með skilgreindan farveg fyrir lífrænt sorp og nýta það bæði til jarð- og eldsneytisgerðar. 

Veitur mæla því ekki með því að fólk fái sér sorpkvarnir í eldhúsvaskana og er þar sammála Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sem leggst alfarið á móti notkun þeirra.