Spurt & svarað um fráveitu

Hvað er í skólpinu?

Í gegnum fráveitukerfið á höfuðborgarsvæðinu fer allt það sem sturtað er niður í klósett, vatn frá sturtum, baði, vöskum, þvottavélum og öðrum heimilistækjum sem nota heitt eða kalt vatn. Hitaveituvatn frá hitun híbýla er stór hluti skólpsins sem er frábrugðið skólpi víðast hvar erlendis. Í eldri hverfum borgarinnar tekur fráveitukerfið einnig við regnvatni og öðru vatni af yfirborði en á 7. áratugnum var farið að leggja tvöfalt kerfi og í þeim fer yfirborðsvatn aðrar leiðir til sjávar en skólpið.

Dælustöðvar, sem staðsettar eru víða við ströndina, sjá svo um að skila skólpinu í hreinsistöðvarnar við Ánanaust og Klettagarða þaðan sem því er dælt grófhreinsuðu um 4 kílómetra út á Faxaflóa.

Hvernig virka dælustöðvar?

  1. Skólpdælustöðvar dæla öllu skólpi  til hreinsistöðva við Ánanaust og Klettagarða við venjulegar aðstæður.
  2. Yfirfallsdælur bætast við í mikilli úrkomu og þá fer útþynnt skólp á haf út.
  3. Stöðvist þessi búnaður opnar neyðarloka sem hleypir öllu skólpinu í sjóinn, rétt út fyrir fjöruborðið.
  4. Neyðarlokurnar eru til þess gerðar að skólp flæði ekki inn í híbýli fólks ef dælustöðvar bila/stöðvast. Fráveitukerfið er hannað með það í huga að skólp flæði frekar útí sjó heldur en inn til fólks.

Við eðlilegar aðstæður ráða stöðvarnar við að dæla öllu því skólpmagni sem í þær kemur. Í mikilli úrkomu eða hláku kemur fyrir að stöðvarnar ráði ekki við það magn sem kemur. Þá fara yfirfallsdælur í gang og er umfram magni af útþynntu skólpi dælt rúma 200 metra á haf út.

Er öllu skólpi innan þéttbýlis í Reykjavík safnað til miðlægrar skólphreinsunar?

Mat starfsfólks fráveitu Veitna er að það magn skólps innan þéttbýlis í Reykjavík sem ekki er safnað til miðlægrar skólphreinsunar sé a.m.k. <1%.

Hversu mikil mengun fylgir óhreinsuðu skólpi sem dælt er í sjó?

Margir þættir hafa áhrif á mengunina sem fylgir skólpi sem fer í sjó. Þar skiptir auðvitað magnið máli, hversu lengi það rennur í sjó, hversu blandað skólpið er hitaveitu- og yfirborðsvatni, veður og straumar í sjónum.

Hvað má gera ráð fyrir að mengun standi lengi yfir?

Saurgerlar fjölga sér illa eða ekki í vatni. Sólarljós brýtur niður saurgerla þannig að við væntum þess að saurgerlamengunin minnki hratt verði hennar vart. Veður hefur líka áhrif á hversu lengi mengunin varir.

Líftími saurkólígerla er áætlaður í klukkustundum. Miðað er við þann tíma sem gert er ráð fyrir að 90% af gerlunum sé dauður (T90).

Hver lætur vita þegar óhreinsað skólp fer í sjó?

Við sendum tilkynningar til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þegar skólp fer í sjó frá dælustöðvum okkar. Hægt er að fylgjast með stöðu neyðarlúga í fráveitusjánni og við setjum líka tilkynningar á vefinn og á Facebooksíðu Veitna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sér um vöktun á mengun á strandsjó. Niðurstöður mælinga þeirra er að finna hér.

Gefi mælingar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur tilefni til að ætla að hætta sé á ferðum vegna mengunar sendir það frá sér viðvaranir.

Líftími kólígerla eftir árstíma
Mánuður Líftími gerla T90
Janúar 9 klst.
Febrúar 8 klst.
Mars 5 klst.
Apríl 4 klst.
Maí 3 klst.
Júní 1 klst.
Júlí 2 klst.
Ágúst 3 klst.
September 5 klst.
Október 8 klst.
Nóvember 9 klst.
Desember 10 klst.
Heimild: Verkfræðistofan Vatnaskil 1991, 1992, 1994, 1996, 1999