Spurt & svarað um örvun holu í Geldinganesi

Af hverju er verið að gera þetta?

Fjölgun íbúa og fyrrtækja í borginni fylgir aukin eftirspurn eftir heitu vatni. Því er þörf á nýjum uppsprettum svo hægt sé að auka framleiðslu, bæði í lághita- og háhitakerfinu. Geldinganes er einn þeirra staða, innan borgarmarkanna, þar sem möguleiki er á að sækja meira heitt vatn úr iðrum jarðar. Þar er til staðar borhola, RV-43, sem hefur til að bera nægan hita en ekki nægilegt vatnsmagn til að vinnsla sé arðbær.

Hvað er örvun?

Örvun borholna er ferli sem felur í sér að vatni er dælt undir þrýstingi á borholu, oftast strax eftir að borun lýkur. Við örvunina er lágur þrýstingur nýttur til að hreinsa  og opna betur smásprungur sem þegar eru fyrir hendi. Þannig má auka rennsli heits vatns.

Er þetta sama og „fracking“?

Nei, fracking snýst um að búa til nýjar sprungur í berginu með því að beita mjög háum þrýstingi.

Hefur þetta verið gert áður?

Frá árinu 1970 hafa nær allar holur sem boraðar hafa verið á lághitasvæðunum í Reykjavík verið örvaðar með svokölluðum „pakkara“, (Sjá hér fyrir neðan). Hið sama hefur verið gert á lághitasvæðunum í Mosfellsbæ þar sem samtals 37 holur hafa verið örvaðar, átta af þeim boraðar eftir árið 1975.

Hvaða árangri má búast við?

Í flestum tilvikum hefur örvun haft mikil og góð áhrif á framleiðnina sem hefur aukist allt að 30-40 falt.

Hefur þetta verið gert annars staðar á Íslandi?

Holur hafa verið pakkaðar víða um land á öðrum jarðhitasvæðum, m.a. á Selfossi, Miðsandi, Klausturhólum, Þóroddsstöðum og Hlíðardal, á Siglufirði, við Urriðavatn, á Seltjarnarnesi og á Laugalandi við Akureyri.

Af hverju er ekki bara framleitt meira virkjanavatn?

Dreifikerfi Veitna fyrir heitt vatn er tvískipt. Annar hluti þess flytur heitt vatn sem nýtt er beint úr borholum á lághitasvæðum í nágrenni Reykjavíkur, svokallað lághitavatn. Hinn hluti þess inniheldur virkjanavatn, sem er kalt vatn sem hitað er upp með gufu sem kemur úr háhitaborholum á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Þó það sé í grunninn mjög lítill munur á virkjanavatni og lághitavatni eins og það snýr að neytendum, veldur blöndun á þessu vatni vandræðum. Það geta orðið útfellingar á magnesíum-sílíkati, sem er eins konar leir, í dreifikerfinu sé upphituðu ferskvatni og lághitavatni blandað saman í miklu magni. Því eru kerfin aðskilin, sum hverfi fá vatn úr virkjunum á Heillisheiði og Nesjavöllum og önnur fá vatn úr borholum á lághitasvæðum.  Með aukinni eftirspurn, t.d. vegna uppbyggingar og þéttingar byggðar, eykst þörfin á að framleiða meira vatn, bæði úr borholunum á lághitasvæðunum og í virkjunum.

Er einhver umhverfismengun af þessu?

Örvunin er aðeins lítill hluti borframkvæmda. Þau umhverfismál sem gæta þarf sérstaklega að við örvun borholna í lághitakerfi hitaveitu höfuðborgarinnar, og þar með talið á Geldinganesi eru:

  • útblástur frá vinnuvélum og tækjum
  • hávaði
  • sjónmengun af bor og öðrum búnaði á yfirborði á meðan á framkvæmdum stendur
  • borholustæði stækkar örlítið
  • áhrif á dýralíf og búsvæði dýra eru hverfandi og tímabundin
  • manngerðir jarðskjálftar

Mikilvægt er að hafa í huga að þessi atriði geta verið mismunandi eftir borstað og eiga ekki öll við alltaf.  Hægt er að draga úr, eða koma í veg fyrir, áhrifum örvunar á umhverfið með viðeigandi forvarnaraðgerðum og réttu vinnulagi.

Hvað eru manngerðir jarðskjálftar?

Hugtakið „manngerðir jarðskjálftar“ vísar yfirleitt til lítilla skjálfta og titrings í jarðlögum af mannavöldum. Þeir verða til við ýmsar framkvæmdir sem breyta álagi í jarðskorpunni. Flestir manngerðir jarðskjálftar eru litlir.

Eru manngerðir jarðskjálftar hættulegir?

Áhættan af manngerðum jarðskjálftum er metin með svipuðum aðferðum og þegar um náttúrulega jarðskjálfta er að ræða. Þeir eru þó flestir svo litlir að fólk finnur ekki fyrir þeim.

Hvað má búast við stórum jarðskjálftum?

Í flestum tilfellum verður fólk ekki vart við skjálfta er fylgja niðurdælingu á vatni í örvunum. Samansafn margra þátta í ferlinu er nauðsynlegt svo slíkir skjálftar verði.  Þessir þættir eru m.a. hraði niðurdælingar og heildarmagn vökva, að nægilega stórt misgengi sé í berginu til að framkalla stærri skjálfta, að þrýstingur sé nægur og að í berginu séu sprungur sem flytja vökvaþrýstinginn frá niðurdælingarstað að misgenginu.

Verður þetta eins og þegar jarðskjálftarnir urðu í Hveragerði 2011 þegar niðurdælingin var á Hellisheiði?

Þrátt fyrir að ferlið sé svipað er umfangið gjörólíkt. Niðurdælinging á Hellisheiði fól í sér miklu meira vatn en það sem notað verður til örvunar á holunni á Geldinganesi.  Farið verður eftir verklagi í formi svokallaðs umferðaljósakerfis til að bregðast við aukinni skjálftavirkni ef hún verður.  Þetta verklag hefur gefið góða raun á Hellisheiði, og er þar mjög lítil finnanleg skjálftavirkni eftir að farið var að vinna eftir því.  Verklagið sem farið verður eftir á Geldinganesi er einnig hannað með það í huga að framkvæmdirnar eru í meiri nánd við byggð.

Finna íbúar í borginni fyrir þessum skjálftum?

Þar sem engir skjálftar fundust við örvun annarra hola á höfuðborgarsvæðinu teljum við ólíklegt að svo verði nú. Að auki hefur verklag við örvunina verið endurhannað til að minnka enn frekar líkur á skjálftavirkni.  Byggð hefur þó þéttst, húsakynni breyst og hver borhola bregst á mismunandi hátt við örvun og því er ekki hægt að útiloka að skjálftar finnist vegna örvunarinnar. Fari þeir yfir ákveðin stærðarmörk verður örvuninni hætt – sjá umferðarljósakerfi.

Hvað verður gert til að koma í veg fyrir manngerða jarðskjálfta?

Hægt er að draga úr áhættunni með stýringum í niðurdælingu og öðrum forvörnum. Með viðeigandi aðgerðum má minnka fjölda og stærð skjálfta, og þar með minnka líkur á skjálftum sem hafa neikvæð áhrif.

Hvernig virkar umferðaljósakerfið?

Mikilvægt er að nota réttar aðferðir og tæki til að fylgjast með manngerðum skjálftum.  Við munum nota svokallað umferðarljósakerfi þar sem skjálftar eru flokkaðir eftir stærð.

  • Grænir skjálftar eru minni að stærð en 1,5 verða á svæðum þar sem búist er við þeim. Íbúar verða ekki varir við þá og þeir hafa ekki áhrif á framvindu verkefnisins.
  • Gulir skjálftar eru að stærð 1,5 -2,0. Verði þeirra vart er hægt á örvuninni þar til engir skjálftar stærri en 1,0 mælast yfir fjögurra klukkustunda tímabil.
  • Appelsínugulir skjálftar eru að stærð 2,0-3,0.  Ef þeirra verður vart er örvunin stöðvuð þar til engir skjálftar stærri en 1,0 mælast yfir tólf klukkustunda tímabil.
  • Rauðir skjálftar eru yfir 3,0 að stærð og fara yfir þau mörk sem sett hafa verið fyrir verkefnið. Verði slíkir skjálftar er framkvæmdum hætt þegar í stað.

Hvað er pakkari og hvernig virkar hann?

Pakkari er einskonar tappi sem er settur í borholuna til að stjórna hvaða hluti holunnar er örvaður.

Hverju er dælt í holuna til að örva hana?

Við notum einungis hreint vatn til að dæla á borholur, bæði við borun þeirra og til að örva þær. Vatnið sem notað verður á Geldinganesi kemur úr neysluvatnslögn í Grafarvogi.

Á að örva fleiri holur?

Lang flestar nýjar holur eru örvaðar. Því er líklegt að nær allar framtíðarholur verði örvaðar. 

Af hverju eru ekki bara boraðar nýjar holur?

Að bora holu er dýrt og getur ein slík kostað allt að 200 milljónir. Það er því ávinningur í því að nýta hitaveituholur sem ekki eru í rekstri. Nýjar holur eru einnig örvaðar fyrir nýtingu.