Nemendur kynnast iðn- og tæknistörfum

19. maí 2022 - 11:50

Síðastliðin ár hefur OR samstæðan, í samstarfi við Árbæjarskóla, boðið nemendum í 10. bekk skólans upp á valáfanga sem kallast Iðnir og tækni. Í áfanganum gefst nemendum tækifæri til að kynnast fjölbreyttum iðn- og tæknistörfum sem unnin eru innan samstæðunnar og að vinna verkefni þeim tengdum. Á dögunum var haldin nokkurs konar uppskeruhátíð og um leið botninn sleginn í námskeiðið þetta skólaárið með kynningu nemenda á verkefnum sínum fyrir foreldra og kennara.

Starfsfólk Veitna tekur virkan þátt í verkefninu en nemendurnir fóru í vettvangsferðir og fengu verklega kennslu sem tengist rekstri á veitukerfunum fjórum, rafveitu, vatnsveitu, hitaveitu og fráveitu.

Fyrir áramót fékk hópurinn m.a. verklega kennslu í rafmagni og farið var í vettvangsferðir í Gvendarbrunna og hreinsistöð fráveitu í Klettagörðum. Áhersla var lögð á umhverfismál, mikilvægi þess að hafa gott aðgengi að hreinu vatni og meginhlutverk fráveitukerfisins. Á vorönn voru verklegir tímar þar sem unga fólkið fékk nasasjón af hönnun, lærði að rafsjóða auk þess sem það fékk grunnkennslu í pípulögnum. Það vakti athygli krakkanna að kennarar þeirra í pípulögnum voru tvær konur enda er það við hæfi þar sem eitt af markmiðum Iðna og tækni er að breyta staðalímynd iðnmenntaðra og fjölga konum í iðngreinum.

 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.