Sólrún ráðin framkvæmdastýra Veitna

11. apríl 2022 - 12:46

Stjórn Veitna hefur ráðið Sólrúnu Kristjánsdóttur í starf framkvæmdastýru Veitna og tekur hún formlega við starfinu 1. maí næstkomandi. Sólrún, sem er með meistarapróf í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og Copenhagen Business School, gegnir nú starfi framkvæmdastýru Mannauðs og menningar hjá OR og er varaformaður stjórnar Veitna.

Sólrún hóf störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur árið 2004, fyrst sem starfsþróunarstjóri til ársins 2012 þegar hún tók við starfi mannauðsstjóra. Því starfi gegndi hún til ársins 2019 þegar hún varð framkvæmdastýra Mannauðs og menningar. Sólrún hefur setið í stjórn Veitna frá árinu 2016.

Guðrún Erla Jónsdóttir formaður stjórnar Veitna:

„Fá þekkja starfsemi Veitna betur en Sólrún. Hún er reyndur stjórnandi  sem hefur tekið þátt í að byggja upp árangursdrifna vinnustaðamenningu. Hún er brautryðjandi í jafnréttismálum og hefur lagt mikið til eflingar iðnmenntunar. Við erum sannfærð um að hún muni leiða Veitur farsællega á þeirri vegferð sem fyrirtækið er á.“

Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna:

„Veitur er fyrirtæki sem ég þekki vel og þykir mjög vænt um. Starfsfólkið er fjölbreyttur hópur fagfólks og verkefnin skemmtileg blanda af traustum handtökum fagfólks sem sum breytast ekki hratt með áranna rás, áskorunum sem fylgja stafrænni byltingu og svo stýringu og stjórnun þessa umfangsmesta veitureksturs landsins. Ég tel mig hafa það sem þarf til þess að fyrirtækið haldi áfram að þroskast og dafna og hlakka mikið til verkefnanna framundan.“

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.