Gróðureldar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk

05. maí 2021 - 11:28

Nokkur viðbúnaður var hjá Veitum vegna gróðureldanna í Heiðmörk í gærkvöldi. Vatnsból höfuðborgarinnar, og vatnsverndarsvæðið í kringum þau, eru staðsett í Heiðmörk og afar mikilvægt að þau mengist ekki, t.d. af olíu eða öðrum efnum sem geta komist af yfirborði í gegnum jarðlögin og í grunnvatnsstraumana. Haft var samráð við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vegna aukinnar hættu á mengunarslysum, sem skapast getur vegna mikillar umferðar stórra ökutækja er bera með sér töluvert magn eldsneytis inn á vatnsverndarsvæðið.

Endurnýjun búnaðar í fráveitu Veitna

28. apríl 2021 - 09:16

Veitur munu í sumar hefja framkvæmdir við nokkuð umfangsmikla endurnýjun búnaðar í dælu- og hreinsistöðvum fráveitu á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið stendur yfir í ríflega ár og á þeim tíma verða tímabundnar rekstrartruflanir í stöðvunum og búast má við að í einhverjum tilvikum þurfi að losa óhreinsað skólp í sjó á meðan á þeim stendur. 

Framkvæmdirnar felast í endurnýjun vélbúnaðar í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða og í dælustöðvum við Ingólfsstræti, Laugalæk og Faxaskjól og er gert ráð fyrir að þeim ljúki haustið 2022. 

Saga fráveitunnar loksins skráð

14. apríl 2021 - 16:04

Bókin CLOACINA – Saga fráveitu er nú komin út á vegum Veitna þar sem Guðjón Friðriksson sagnfræðingur rekur skólpsögu höfuðborgarinnar síðustu liðlega 100 árin. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fékk bókina afhenta á þeim slóðum er forsíðumynd hennar er tekin sem er í námunda við hið fornfræga almenningssalerni í borginni, Núllið í Bankastræti. Forsíðumyndin sýnir opna skólprennu við hlið vatnsbrunns í Bankastræti.

Veitur meta lægra kolefnisspor verktaka í útboðum

12. apríl 2021 - 08:23

Veitur hafa tekið ákvörðun um að leggja meiri áherslu á umhverfismál í vali á verktökum á vegum fyrirtækisins og stuðla þannig að orkuskiptum í framkvæmdum. Skilyrði verða sett í útboðslýsingar er fá verktaka til að huga enn frekar að umhverfismálum og aðgerðum til að minnka kolefnisspor sitt. Einnig geta umhverfisþættir sem leiða af sér minna kolefnisspor framkvæmda vegið allt að 20% þegar tilboð eru metin.

Upplýsingagjöf Veitna vekur athygli

08. apríl 2021 - 14:25

Við erum afar stolt af því að fá tvær tilnefningar til Lúðursins, íslensku auglýsingaverðlaunanna. Veitur leggja mikið upp úr því að upplýsa þegar kemur að framkvæmdum og erum við sífellt að leita betri leiða til þess að ná til fólks.

Tilnefningarnar í ár eru annarsvegar fyrir umhverfismerkingar vegna framkvæmda í Tryggvagötu en þar er um að ræða samstarfsverkefni Veitna og Reykjavíkurborgar. Merkingarnar sem bera heitið „Endurspeglum mannlífið“ unnum við með auglýsingastofunni Tvist.

Bregðumst við bylgjunni!

24. mars 2021 - 18:00

Okkur finnst mjög gaman að hittast en vegna aðstæðna í samfélaginu verður afgreiðslan á Bæjarhálsinum lokuð fram yfir páska.

Þú getur sinnt erindum þínum gegnum Mínar síður, hringt í okkur í síma 516 6000, sent okkur skilaboð á Facebook eða tölvupóst á veitur@veitur.is.

Við stöndum að sjálfsögðu alltaf vaktina!

Fáir vita hvaðan neysluvatnið kemur

24. mars 2021 - 11:49

Rétt rúmlega helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu þekkir uppruna neysluvatnsins á heimilinu. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Veitur létu gera um þekkingu og viðhorf til vatnsverndarsvæða í tilefni af alþjóðlegum degi vatnsins, 22. mars. Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um hvar vatnsverndarsvæðin eru því mörg þeirra eru einnig vinsæl útivistarsvæði.

Guðbjörg Sæunn ráðin forstöðukona Framtíðarsýnar og reksturs

28. febrúar 2021 - 13:38

Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir hefur verið ráðin forstöðukona Framtíðarsýnar og reksturs hjá Veitum. Hún útskrifaðist með BS próf í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og með M.Sc próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Að námi loknu hóf Guðbjörg störf á framleiðslusviði Össurar, fyrst sem ferilseigandi á CNC renniverkstæðinu þar til hún tók við öryggis- og umbótasviði framleiðslu og síðar starfaði hún sem framleiðslustjóri silikondeildar.