Gvendarbrunnar

Fyrsta vatnsveita á Norðurlöndum til að hljóta ISO 9001 vottun.

Vatn á sér hvorki upphaf né endi í náttúrunni, það er á eilífri hringrás. Á yfirborði úthafanna, gróðri, mönnum, dýrum, ám og vötnum á sér stað uppstreymi raka. Í lofthjúpnum þéttist rakinn og verður að skýjum. Það regnvatn sem ekki gufar upp, sígur í jörðina, sérstaklega þar sem hún er gljúp á yfirborðinu, t.d. þar sem hraun þekur yfirborðið eins og í Heiðmörk. Miklir grunnvatnsstraumar eru undir Heiðmörk.

Sagan. Búseta manna hefur frá upphafi verið háð aðgengi að vatni. Vatnsveita Reykjavíkur tók til starfa 1909 og var þá mesta mannvirki sem Íslendingar höfðu ráðist í. Í júní 1909 var vatni hleypt á lögn frá Elliðaánum til Reykjavíkur, en um haustið var leiðslan frá Gvendarbrunnum tekin í notkun. Með þessum virkjunarframkvæmdum áttu Reykvíkingar greiðan aðgang að nægu hreinu vatni, enda leið ekki á löngu þar til vatnsneysla þeirra margfaldaðist. Vatnsnotkun í Reykjavík jókst úr 18 lítrum á sólahring í rúmlega 200 lítra á sólarhring á hvern íbúa fljótlega eftir tilkomu vatnsveitunnar.

Vatnsöflun. Vatnsból Veitna eru í Heiðmörk. Vatnstökusvæðin eru Gvendarbrunnar, Myllulækjarsvæði og Vatnsendakriki. Reynslan sýnir að vatnsvinnsla í Heiðmörk byggist alfarið á grunnvatnsstreymi undan Heiðmörk, en meginhluti þess vatns kemur undan Húsafellsbruna og úr Bláfjöllum. Vatnsrennsli í brunnana er mjög háð úrkomumagni, snjóþekju í Bláfjöllum að vori til og dreifingu úrkomunnar yfir árið. Vatnsveitukerfi okkar er stærsta vatnsveita landsins og þjónar um helmingi íbúa þess. Veitusvæðið nær til Reykjavíkur, Kópavogs, Seltjarnarness og hluta Mosfellsbæjar.

Gæði vatns. Vatnsveita Reykjavíkur var fyrsta vatnsveita á Norðurlöndum til að hljóta vottun samkvæmt ISO 9001 gæðastaðlinum. Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um mikilvægi varfærnislegrar umgengni um vatnstökusvæði Veitna, einkum í Heiðmörk. Hreint og gott neysluvatn í nánd við byggð er ómæld auðlind sem ber að vernda með öllum tiltækum ráðum. Mengunarvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir, eins og lýsing, eru nauðsynlegar til að tryggja neytendum á veitusvæði okkar hreint og tært vatn um alla framtíð.

Gvendarbrunnar