Orkureikningar

Hvað notar heimilið mitt mikla orku? 

Á Mínum síðum getur þú séð raunnotkun þína í núverandi húsnæði á myndrænu formi og borið saman við meðalnotkun sambærilegra heimila. Við mælum eindregið með því að þú lítir þar inn. Einnig getur þú slegið inn upplýsingar um þína hagi, stærð og aldur húsnæðis og fjölda í heimili og reiknað út hve mikla orku sambærilegt meðalheimili á Íslandi notar 

Hvernig lítur dæmigerður reikningur út?

Hefðbundinn áætlunarreikningur 

Viðskiptavinir fá að jafnaði svokallaðan áætlunarreikning fyrir heitt vatn og rafmagn 11 mánuði á ári. Áætlunarreikningur byggir á áætlaðri notkun út frá notkunarsögu. Við sendum alltaf áætlunarreikning nema lesið hafi verið af frá útgáfu síðasta reiknings, þá sendum við uppgjörsreikning. 

Við reynum að láta áætlunina endurspegla sem best raunverulega notkun. Ef þú telur svo ekki vera mælum við með því að þú sendir okkur álestur í gegnum Mínar síður - þjónustuvefinn okkar. Í framhaldinu færðu síðan uppgjörsreikning frá okkur og eftir það áætlunarreikninga sem endurspegla notkunina betur. 

Uppgjörsreikningur  

Ef um uppgjörsreikning er að ræða getur hann verið hærri en áætlunarreikningarnir á undan af eðlilegum orsökum. Skýringin gæti einfaldlega verið að nýtt orkufrekt heimilistæki hafi verið tekið í notkun á heimilinu. Mögulega getur einnig verið um rangan álestur eða ranga áætlun að ræða. Bilun gæti hafa komið upp sem olli sírennsli vatns gegnum húskerfið, þ.e. vatn bunaði stjórnlaust í gegn. Ofn gæti hafa bilað, gat komið á lagnir eða stjórnlokar hætt að virka. 

Viðskiptavinir fá að jafnaði sendan uppgjörsreikning vegna heita vatnsins og rafmagns einu sinni á ári samkvæmt álestri. Er það til að sannreyna áður áætlaða notkun. 

Ef okkur hefur borist nýr álestur frá útgáfu síðasta reiknings sendum við þér uppgjörsreikning. Hann er í raun bæði uppgjörs- og áætlunarreikningur því þar er bæði gerð upp notkun frá síðasta álestri auk þess sem áætlun er bætt við út viðkomandi reikningstímabil. 

Jöfn skipting 

Notkun á heitu vatni er afar misjöfn eftir árstíðum. Við höfum haft það fyrir sið að  skipta áætlaðri ársnotkun jafnt niður á áætlunarreikninga óháð árstíma. Þannig greiðir þú alltaf jafn mikið í hverjum mánuði og útgjöld heimilisins sveiflast ekki milli mánaða. 

  • Reikningar eru almennt birtir viðskiptavinum á tímabilinu 10.-15. hvers mánaðar. Allar reikninga má sjá á Mínum síðum.
  • Gjalddagi orkureikninga er 5. dagur hvers mánaðar eða fyrsti virki dagur þar á eftir falli hann á frídag, svo sem helgi eða annan frídag. Gjalddagi er hinn sami og eindagi.
  • Okkur ber skylda samkvæmt lögum að sundurliða rafmagnsreikninginn þannig að skýrt komi fram hvað tilheyrir dreifingu, flutningi og jöfnunargjaldi. 
  • Á rafmagnsreikningum er skýringartexti þar sem þetta er útskýrt. Textinn hljómar svona: 
    Dreifing er fyrir dreifingu raforku og þjónustu Veitna. Flutningur er vegna þjónustu Landsnets sem rekur háspennukerfið. Jöfnunargjald rennur til ríkisins til að jafna orkukostnað milli landshluta sbr. lög nr. 98/2004. 
  • Jöfnunargjald er gjald sem rennur til ríkisins og er ætlað að jafna orkukostnað milli landshluta, sbr. lög nr. 98/2004. Markmið laganna er að stuðla að jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda. Orkustofnun fer með framkvæmd laganna undir yfirstjórn ráðherra. Gjaldið leggst bara á dreifingu rafmagns, en ekki á söluhluta (hjá ON til dæmis). 

Mælieiningar 

Rafmagn er mælt í kílówattstundum, vatn í rúmmetrum og álagning vatns- og fráveitugjalda reiknuð út frá fermetrafjölda húsnæðis.