Örplast í neysluvatni

Afar lítið örplast finnst í neysluvatni frá vatnsveitum Veitna. Það sýnir rannsókn gerð af ReSource International ehf. (RI) en tekin voru sýni í borholum, vatnsbólum, vatnstönkum og dreifikerfum. Fundust örplastsagnir í um helmingi sýnanna í dreifikerfinu en minna í borholum og vatnstönkum. Miðgildi þeirra vatnssýna sem tekin voru sýndi að um ein ögn fannst í hverjum 10 lítrum vatns. Til samanburðar má nefna að í rannsókn ORB Media á neysluvatni víða um veröld, sem birt var árið 2018, fundust að meðaltali 50 örplastsagnir í 10 l vatns.

Í skýrslu sem gefin var út af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO), í ágúst 2019 kemur fram að þrátt fyrir að ekki sé til mikið af upplýsingum, sérstaklega um mjög smáar örplastsagnir, séu engar vísbendingar um að þær séu hættulegar heilsu manna. Stofnunin tekur fram að frekari rannsókna sé þörf.