Sérbýli

Heimtaugar í sérbýli

Einbýlishús hafa sér rafmagnsheimtaug. Það á einnig oftast við um par- og raðhús. Minnstu rafmagnsheimtaugar eru einfasa 63A, sem samsvarar 14kW.

Veitur mæla ávalt með vali á snjöllum hleðslustöðvum sem bjóða upp á álagsstýringu fyrir allar tegundir húsnæðis.

Þetta á sérstaklega við þegar settar eru upp tvær eða fleiri hleðslustöðvar og er nauðsynlegt fyrir bílskúrslengjur.

Hversu stór er heimtaugin mín?

Yfirleitt er hægt að sjá hversu stór heimtaug er með því að skoða stærð aðalvara í rafmagnstöflu.

Á þessum rafmagnstöflum má sjá að stærð heimtaugar er 63A.

Er ég með einfasa eða þriggja fasa rafmagn?

Einfaldasta leiðin til að sjá hversu margir fasar eru tengdir inn í sérbýli er að skoða rafmagnsmælinn. Ef á mælinum stendur 230 V þá er einn fasi tengdur. Ef á mælinum stendur 3x230/400 V þá eru þrír fasar tengdir.

Í flestum tilvikum er hægt að breyta heimtaug úr einfasa yfir í þriggja fasa. Hafðu samband við rafverktaka sem aðstoðar þig við uppsetningu.

Rafmagnsmælar: Einfasa og þriggjafasa.

Hve stóra hleðslustöð þarf ég?

Tegund rafbíls ræður því hversu stór hleðslustöð er nauðsynleg. Einnig þarf að hafa í huga stærð heimtaugar og aðra aflnotkun heimilis.  Algeng hámarksaflnotkun sérbýlis er 5 til 7kW.

Til viðmiðunar má draga hámarksaflnotkun frá stærð heimtaugar til að finna út hversu stóra hleðslustöð er hægt að setja upp.

Hleðslustraumur Hleðsluafl Drægni eftir 1 klst. hleðslu* Hleðslutími 40 kWh rafhlöðu úr 20% í 80%
10A/16A - hefðbundinn tengill 2,3 kW 11 km 10 klst.
16A, einfasa - fasttengd stöð 3,6 kW 18 km 7 klst.
32A, einfasa - fasttengd stöð 7,3 kW 36 km 3 klst.
16A, þriggja fasa - fasttengd stöð 11,0 kW 55 km 2 klst.
32A, þriggja fasa - fasttengd stöð 22,0 kW 110 km 1 klst.
* Miðað við 20 kWh eyðslu á 100 km

Dæmi: 

Stærð einfasa heimtaugar er 63A eða 14kW. 14kW-7kW=7kW sem hægt er að nota til hleðslu.

Athugið að sumar hleðslulausnir bjóða upp á álagsstýringu sem dregur úr afli hleðslustöðvar á meðan önnur notkun heimilis er mikil. Þetta er einnig mikilvægt að hafa í huga þegar fleiri en ein hleðslustöð er sett upp.

Skammstafanir

A = Amper
kW = Kílóvatt
kWh = Kílóvattstund
V = Volt

Meðalakstur fólksbíls er um 40km á dag og því er meðalorkuþörf rafbíls aðeins 8 kWh. 

Hvenær er best að hlaða?

Rafmagnsálag heimila nær yfirleitt hámarki á tímabilinu 16:00-22:00 síðdegis en er síðan í lágmarki frá 22:00-06:00. Við mælum með því að hlaða á þeim tíma þar sem álagið er minnst. Flestum dugar að hlaða yfir nóttina þegar önnur notkun heimilis er lítil.

Flestir rafbílar og sumar hleðslustöðvar bjóða upp á þann möguleika að stilla hvenær hleðsla á að hefjast.

Álagskúrfa rafmagnsnotkunar á dæmigerðu heimili.