Spurt & svarað um þverun Elliðaáa

Af  hverju var þessi leið valin?

Lagnaleiðin með greftri er talin vera hagkvæmust, hafa minnsta áhættu í för með sér og tæknilegir annmarkar í lágmarki. 

Hvað tekur þetta langan tíma?

Tímasetningu framkvæmda er hagað þannig að séu utan við helsta göngutíma fiska. Þess vegna verður unnið í Elliðaárdalnum á tímabilinu frá miðjum október fram í enda mars. Gert er ráð fyrir að þverun hvorrar kvíslar um sig taki um það bil 4 vikur.

Var ekki hægt að nota gömlu stokkana?

Stokkarnir eins og þeir eru í dag eru of litlir fyrir nýjar lagnir sem nauðsynlega þurfa að vera meiri að umfangi til að anna dreifiþörfinni, auk þess sem þeir hafa verið metnir ónýtir. Færsla núverandi lagna í jörðu getur haft jákvæð sjónræn áhrif í för með sér því ekki þarf steypta brú eins og áður. Ásýndarbreytingar vegna framkvæmdanna í heild geta því orðið til hins betra.

Hvaða skilyrði hafa verið sett um framkvæmdina?

Leitað var umsagna Reykjavíkurborgar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar. Framkvæmdin þarf að lúta sömu skilyrðum og framkvæmdir við vatnsverndarsvæði og sérstök skilyrði eru fyrir hitaveitulagnir undir ána. Þá verður aukið eftirlit á svæðinu og skilyrði sett um frágang í Elliðaárdal.
Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu.

 • Fyrirhugaðar framkvæmdir þurfa að eiga sér stað utan veiðitíma og þekkts göngutíma laxfiska frá miðjum október fram í enda mars.
 • Við framkvæmdina skal gera ráð fyrir vatnavöxtum og hanna framhjáhlaup með það í huga sem og byggja varnargarða sem beina árvatni frá framkvæmdastað.
 • Forðast skal að grugg berist frá framkvæmdastað í árvatnið og hönnunarreglur settar um gerð varnargarða, uppgröft og búnað til hreinsunar.
 • Botnefni skal geymt og notað aftur við frágang sem líkastur fyrir framkvæmdina.
 • Rennsli neðan við framkvæmdastað skal haldið í samræmi við náttúrlegt rennsli.
 • Tryggja skal að skaðleg efni berist ekki í árvatnið.
 • Steypa þarf að harðna í a.m.k. viku áður en árvatni er hleypt í snertingu við hana.
 • Takmarkanir á umferð vinnuvéla.
 • Ganga skal frá jarðvegsárum þannig að gróður verði sem líkastur sem fyrir var.
 • Rannsóknir á seiði laxfiska og smádýra fyrir framkvæmd og eftir.
 • Gerð verkáætlunar allra sem að verkinu koma um viðbrögð ef upp koma atvik eð óhöpp sem ógnað geta lífríkinu.

Hvaða áhrif hefur þessi framkvæmd á lífríki árinnar?

Í umsögn Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að ef farið verður í þessar framkvæmdir með því að veitulagnir verði grafnar undir árbotn beggja kvísla Elliðaánna og þær gerðar með tilliti til ofangreindra atriða er það mat stofnunar að áhrif á ferskvatnslífríki í Elliðaám verði talsverð en staðbundin og tímabundin og hafi því ekki alvarleg neikvæð áhrif til lengri tíma.

 • Áhrif framkvæmda verða mikil á skilgreindu framkvæmdasvæði sem fer á þurrt. Leitast verður við að skipuleggja framkvæmdir þannig að röskun verði sem minnst.
 • Í ljósi þess að um verður að ræða inngrip í sjálfar árnar var leitað til Hafrannsóknastofnunar og beðið um umsögn og leiðbeiningar vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Í Elliðaánum gengur lax til sjávar þegar hann hefur náð gönguseiðastærð (um 10-14 cm) og kemur aftur eftir ársdvöl í sjó til hrygningar. Nokkuð af laxinum lifir af hrygningu og veturinn en gengur þá til hafs á ný. Miðað við forsendur í framkvæmdalýsingu segir í umsögn Hafrannsóknarstofnunar að búast megi við að flatarmál botnsvæðis sem fer tímabundið á þurrt við framhjáhlaup verði um 800 m2 í Austurkvísl og um 300 m2 í Vesturkvísl Elliðaánna. Hlutfall þess svæðis sem fer á þurrt er um 1,1% af heildarbotnfleti.
 • Áhrifasvæði neðan við framkvæmdastað er hlutfallslega stutt.

Eruð þið viss um að þetta verði í lagi og hefur svona verið gert áður?

 • Í umsögn Hafrannsóknarstofnunar er vísað í dæmi um sambærilega framkvæmd við Úlfarsá. Við framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar var um 130 m árhluti Úlfarsár færður í nýjan farveg. Við mat á áhrifum framkvæmdarinnar kom fram að þéttleiki laxaseiða í nýjum farvegi var orðinn sambærilegur við það sem var fyrir framkvæmdir eftir um eitt ár.
 • Líkur eru á að smádýr og fiskar leiti inn á raskað svæði í Elliðaánum af nærliggjandi svæðum og að lífríki komist í samt lag á tiltölulega stuttum tíma segir ennfremur í umsögn stofnunarinnar.

Verður gamli stokkurinn fjarlægður?

Hann verður ekki fjarlægður í þessum verkþætti.

Hvað verður um göngubrúna yfir gamla stokkinn?

Endurnýjun gönguleiða er í skoðun hjá Reykjavíkurborg sem mun kynna þá framkvæmd þegar niðurstaða liggur fyrir.

Kynningar af fundi sem haldinn var í Félagsheimili Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdal 10.10.2019